Vitundarvakning um geðheilbrigði á vinnustað

Við í Mental ráðgjöf höldum Alþjóðlegan dag geðheilbrigðis 10. október sérstaklega hátíðlegan í ár í frábæru samstarfi við Advania, Visku – stéttarfélag, Reykjavíkurborg, Tixly – tix.is, Tryggingastofnun og Mannauð – félag mannauðsfólks á Íslandi. 

 

Það vill svo til að þemað í ár er Geðheilbrigði á vinnustað og það þykir okkur í Mental við hæfi enda málefnið afar brýnt. Og af því tilefni viljum við fá þig og þinn vinnustað með okkur í lið.

 

Vikuna 7. – 11. október stöndum við fyrir víðtæku átaki í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum og inni á vinnustöðum landsins þar sem ætlunin er að vekja svo um munar máls á mikilvægi þess að vinnustaðir hlúi að andlegri heilsu starfsfólks og stuðli að geðheilbrigðu vinnuumhverfi. 

 

Á sjálfum deginum, fimmtudaginn 10. október, bjóðum við áhugasömum stjórnendum og öðrum fulltrúum vinnustaða til ráðstefnu í boði Advania, en meira um það síðar. 

 

Um leið og við blásum til átaksins bjóðum við vinnustöðum að vera með geðheilbrigði í liði og taka þátt í átakinu með okkur: 
  • Með því að deila frá okkur ýmsu því efni sem við birtum á samfélagsmiðlum Mental í tengslum við átakið
  • Með því að nýta sér aðganginn að verkfærakistunni, sem opnar 20. september og er stútfull af geðgóðu góðgæti. Góðgætið má nota inni á vinnustöðum til að minna á málefnið, blása til viðburða og leikja og minna starfsfólk á að hlúa að eigin andlegu heilsu og þeirra sem í kringum þau eru. Í verkfærakistunni verður að auki efni sem fyrirtæki og starfsfólk geta notað til að deila á samfélagsmiðla og vekja þannig athygli á átakinu
Skráðu þitt fyrirtæki til þátttöku hér fyrir neðan. Þar er einnig að finna upplýsingar um skráningu á ráðstefnuna.