Mental fræðslufyrirlestrar fyrir stjórnendur og starfsfólk

Starfsfólks og stjórnendur fyrirtækja standa frammi fyrir stórum áskorunum í geðheilsu starfsfólks. Ómeðhöndlaður geðvandi starfsfólks leiðir gjarnan til kostnaðarsamra vandamála á borð við veikindafjarvistir og aukin útgjöld til starfsmannamála auk þess að hafa neikvæð áhrif á samskipti og starfsánægju, svo ekki sé talað um augljósa mannlega þjáningu og skerðingu á lífsgæðum hlutaðeigandi. Huga þarf að geðheilsu á vinnustað áður en krísur koma upp og segja má að geðheilbrigði á vinnustað sé að verða eitt mikilvægasta úrlausnarefnið á vinnumarkaði í dag.

Mental ráðgjöf býður fyrirtækjum upp á fræðslufyrirlestra sem ætlað er að veita upplýsingar og vekja stjórnendur og starfsfólk til vitundar um mikilvægi þess að huga að geðheilsu á vinnustað.

Við bjóðum upp á tvennskonar fyrirlestra:

Fyrirlestur fyrir stjórnendur:

Í fyrirlestrinum er farið yfir þær helstu áskoranir sem stjórnendur fyrirtækja og stofnana standa frammi fyrir þegar kemur að geðheilbrigði starfsfólks.

Rætt er um áhrif stjórnunar og vinnufyrirkomulags fyrirtækja á geðheilsu starfsmanna, um skyldur og ábyrgð stjórnenda og þá þætti sem líklegir eru til að draga úr eða efla geðheilsu á vinnustað.

Stuðst er við íslenskar og alþjóðlegar rannsóknir og fjallað er um þær leiðir sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) og alþjóðleg ráðgjafafyrirtæki hafa lagt til að farið sé eftir þegar hugað er að þessum málum.

Að lokum er fjallað um nálgun og aðferðir Mental.

Fyrirlesturinn er 40-60 mínútna langur og mögulegt er að laga hann að einhverju leyti að sértækum þörfum fyrirtækja.

Fyrirlestur fyrir allt starfsfólk

Í fyrirlestrinum er farið yfir þau helstu atriði í stjórnun og vinnufyrirkomulagi fyrirtækja sem líkleg eru til að draga úr eða efla geðheilsu starfsfólks, um ábyrgð fyrirtækja, stjórnenda og starfsfólksins sjálfs til að hlúa að geðheilbrigði á vinnustað. Fjallað er um helstu einkenni geðvanda sem starfsfólk getur fundið fyrir sem og möguleg áhrif slíks vanda á frammistöðu, líðan og starfsánægju.

Fjallað er um það hvernig starfsfólk og stjórnendur fyrirtækja geta lært að bera kennsl á einkenni vanda og hvenær og hvernig er rétt að grípa áður en vandi verður að krísu. Einnig er stuttlega fjallað um þær leiðir sem sýnt hefur verið fram á að skili árangri í að hlúa að eigin geðheilsu og þeirra sem í kringum okkur eru og bæta líðan starfsfólks á vinnustað.

Að lokum er fjallað um nálgun og aðferðir Mental.

Fyrirlesturinn er 40-60 mínútna langur og mögulegt er að laga hann að einhverju leyti að sértækum þörfum fyrirtækja.

———-

Fyrirlestrar þessir henta vel á reglulegum fundum stjórnenda sem og á starfsmannadögum eða -fundum af ýmsu tagi.

Með því að fá okkur í heimsókn er þitt fyrirtæki að taka fyrsta skrefið í að opna á þá mikilvægu umræðu sem geðheilbrigði og vellíðan á vinnustað er.

Taktu skrefið