Geðheilsa á vinnustað sem samfélagsábyrgð

Á þessum fyrstu mánuðum í starfsævi Mental höfum við hlustað og lært. Ekki síst af hinum fjölmörgu viðskiptavinum sem við vinnum nú með og í tengslum við allt það fólk sem við hittum fyrir á fræðslufyrirlestrum. Það er eiginlega eitt sem stendur upp úr:

Geðheilsa á vinnustað er ekki og má ekki að vera einkamál starfsfólksins!

Ábyrgðinni á geðheilbrigði á vinnustað hefur hingað til verið velt yfir á starfsfólk fyrirtækja. Geðheilsa hefur þannig verið talin einkamál hvers og eins og ef vandamál koma upp í tengslum við geðvanda starfsfólks hafa þau gjarnan verið leyst með því að beina starfsfólki í ráðgjöf sálfræðinga eða bjóða því upp á fræðslu. Og geðheilsa er varla nefnd á nafn á vefsvæðum eða í starfsmannastefnum fyrirtækja, nema í samhengi þess að starfsfólki er boðinn fjárhagslegur stuðningur til að leita til sálfræðinga. Sem er góðra gjalda vert en þó er það svo að niðurstöður rannsókna benda til þess að slíkt skilar afar takmörkuðum árangri og reynsla íslenskra og erlendra fyrirtækja er sú að fáir starfsmann nýta sér þessa þjónustu. Ástæður þess eru efni í annan pistil.

Þörfin er þó afar brýn. Og úrlausnarefnin fjölmörg. Ein ástæða þess að stofnanir ættu að hugsa um geðheilsu starfsmanna sinna er sú að hún getur haft veruleg áhrif á framleiðni, kostnað og rekstrarafkomu í gegnum auknar veikindafjarvistir, aukinn starfsmannakostnað og minnkaða getu starfsfólks til að sinna verkefnum sínum.

En önnur og öllu „æðri“ ástæða fyrir því að fyrirtæki ættu að hugsa um geðheilbrigði starfsfólks er hin margumtala samfélagsleg ábyrgð. Með samfélagslegri ábyrgð er átt við þá hugmynd að fyrirtækjum beri siðferðisleg skylda til að starfa á þann hátt sem gagnast samfélaginu í heild, ekki bara hluthöfum þeirra. Og ef við lítum til þess að þjóðfélagslegar áskoranir tengdar geðvanda séu ærnar og vandinn fari eingöngu vaxandi má með sanni segja að geðheilsa sé áskorun sem ekki verður leyst nema með samhentu átaki ólíkra hagaðila.

Með því að setja geðheilbrigði starfsfólks í forgang eru fyrirtæki í lykilstöðu til að auka enn frekar á skuldbindingu sína til samfélagslegrar ábyrgðar og stuðla að heilbrigðara og betur fúnkerandi samfélagi. Þegar átak í geðheilbrigðismálum innan fyrirtækja eru sett í búning samfélagsábyrgðar í nafni viðkomandi fyrirtækja leggja þau nafn sitt við gildi sem tengjast samfélagi og þjóðfélagslegum áskorunum og eru í lykilstöðu til að byggja upp jákvæða ímynd sem vinnustaðar, auka helgun starfsfólks, tryggð og stolt af vinnustaðnum sínum og stíga mikilvæg skref sem virkur þátttakandi í úrlausn þjóðfélagslegum áskorunum.

Til að ljúka þessari langloku langar mig að setja enn og aftur tóninn fyrir komandi misseri og rifja upp ágæta tilvísun í ráðgjafafyrirtækið McKinsey:

Framundan er bylting í því hvernig fyrirtæki og stofnanir þurfa að hugsa, tala um og takast á við vellíðan starfsfólks. Geðheilbrigði á vinnustað er að verða eitt mikilvægasta úrlausnarefnið í viðskiptalífinu í dag.

https://www.mckinsey.com/industries/healthcare-systems-and-services/our-insights/mental-health-in-the-workplace-the-coming-revolution

Helena Jónsdóttir

Stofnandi og framkvæmdastjóri Mental