Yfirlit

Stefnur & sáttmálar

Efnisyfirlit

Hjá Mental ráðgjöf styðjum við vinnustaði við að móta skýrar stefnur og sáttmála sem efla andlega vellíðan, heilbrigð samskipti og sterka vinnustaðamenningu. Með mótun geðheilsustefnu, viðverustefnu eða samskiptasáttmála hjálpum við til við að skapa umgjörð sem stuðlar að jafnvægi, heilbrigði og langtímaárangri.


Geðheilsustefna er hjartað í okkar vinnu. Hún felur í sér skýran ramma og aðgerðaáætlun til að efla andlega vellíðan á vinnustað. Allt ferlið er unnið í nánu samstarfi við stjórnendur og starfsfólk, með áherslu á gagnsæi, valdeflingu og raunhæfar lausnir.


Við sjáum um skipulag, undirbúning og eftirvinnslu og tryggjum að niðurstaðan sé bæði hagnýt og framkvæmanleg. Með aðstoð Mental byggir vinnustaðurinn upp sjálfbæra og samfélagslega ábyrga framtíð.

Geðheilsustefna

Geðheilsustefna er umgjörð sem miðar að því að skapa vinnuumhverfi sem styður og eflir geðheilbrigði og stuðlar um leið að árangri og andlegri vellíðan stjórnenda og starfsfólks. Með geðheilsustefnu er ekki síst ætlunin að setja fram skýr markmið og aðgerðaáætlun sem tekur til ólíkra þátt sem úttekt bentir til að nauðsynlegt sé að huga að.

Í vinnu við þróun geðheilsustefnu er stofnaður vinnuhópur einstaklinga úr starfsliði og stjórnendahópi vinnustaðarins en ráðgjafi Mental sér um allt skipulag, undirbúning og eftirvinnslu og tekur að sér hlutverk „ritstjóra“ stefnunnar.

Þegar geðheilsustefna er „útskrifuð“ úr vinnuhópi er hún kynnt fyrir stjórnendum og hún rýnd og yfirfarin áður en hún er samþykkt. Miklu skiptir hér að stjórnendur hafi yfirsýn yfir þær aðgerðir, úrbætur og breytingar sem lagt er til að ráðist verði í og séu tilbúin til að skuldbinda sig til þeirrar vinnu sem það kann að útheimta, hvort sem vinnan verður unnin af ráðgjöfum Mental, stjórnendum, öðru starfsfólki skólans eða öðrum þjónustuaðilum/ráðgjöfum.

Markmið

Að byggja upp vinnumenningu þar sem geðheilbrigði er í forgrunni. Með skýrri stefnu og markvissri aðgerðaáætlun má skapa styðjandi og árangursríkt vinnuumhverfi.

Helstu atriði

Mótun geðheilsustefnu byrjar á úttekt Mental.

 Vinnuhópurinn hittisti í 2-3 skipti (2 klst í senn) þar sem afurðin er markvissar aðgerðir og efni sem mótar geðheilsustefnuna.

Aðgerðir 

Geðheilsustefna felur í sér aðgerðaáætlun sem vinnuhópur mótar út frá niðurstöðum úttektar Mental. Aðgerðirnar eru settar fram sem mælanleg markmið, því árangur sem sést og mælist skiptir okkur hjá Mental máli.

Innleiðing

Til að innleiða geðheilsustefnu er haldinn kynningarfundur fyrir allt starfsfólk þar sem farið er yfir markmið stefnunnar. Að því loknu hefst Geðheilsuátak sem setur fræðslu og forvarnir í forgrunn.
 
Geðheilbrigði er gríðarlega mikilvægt lýðheilsumál sem snertir alla. Þess vegna tókum við hjá Tixly þá ákvörðun að fá Mental Ráðgjöf til liðs við okkur við mótun sérsniðinnar geðheilbrigðisstefnu sem endurspeglar gildi okkar og þarfir. Mental Ráðgjöf nýtti sérþekkingu sína til að fá innsýn í starfsemi Tixly og skapa þannig stefnu sem sameinar sjónarmið starfsfólks og styrkir vinnumenningu okkar. Ferlið hefur ekki aðeins veitt okkur dýpri skilning á málefninu heldur líka tækifæri til að taka sameiginlega ábyrgð á heilsusamlegu starfsumhverfi. Við hvetjum önnur fyrirtæki, óháð atvinnugreinum, til að grípa til aðgerða og leggja sitt af mörkum til bættrar lýðheilsu. Geðheilbrigði er mál sem við öll getum lagt okkar af mörkum til að styrkja.
Sindri Már Hannesson, marketing director at Tixly (tix.is)

Viðverustefna


Viðverustefna (e. attendance policy) lýsir því hvernig vinnuveitandi nálgast málefni eins og fjarveru vegna veikinda, leyfi og önnur tilvik þar sem starfsmaður er fjarverandi frá vinnu.

Viðverustefna skapar skýran ramma fyrir starfsfólk og stjórnendur um viðbrögð við fjarveru frá vinnu og er ætlað að tryggja sanngirni og jafnræði. Þá er ekki síst markmiðið að styðja starfsfólk við að leysa úr áskorunum sem hafa áhrif á viðveru og/eða vellíðan og draga þannig úr fjarveru frá vinnu.

Markviss viðverustefna með umhyggju að leiðarljósi styður stjórnendur og starfsfólk í að bregðast við starfsaðstæðum sem kunna að draga úr getu til að viðhalda jafnvægi milli vinnu og einkalífs, jöfnu álagi eða ánægju í leik og starfi.

Með viðverustefnu gefst tækifæri til að eiga samtöl um málefni er snerta vellíðan okkar, starfsaðstæður, upplifun og heilsu.

Markmið

 Að styðja við og hlúa að starfsfólki sem er fjarverandi frá vinnu vegna veikinda, slysa, barnsburðar, áfalla eða annara ástæðna. Með því má draga úr veikindafjarveru starfsfólks.

Viltu endurgjöf?

Við getum lesið yfir núverandi viðverustefnu vinnustaða og gert tillögur að úrbótum. Markmið slíkrar vinnu er að veita vinnustöðum tækifæri til að tryggja heildræna nálgun viðverustefnunnar.

Vantar stefnu?

Við getum einnig mótað viðverustefnu fyrir vinnustaði. Slík vinna fer ávallt fram í samvinnu við mannauðsstjóra eða sambærilegan stjórnanda/stjórnendur. Afurðin er fullunnin viðverustefna ásamt öllum viðeigandi fylgigögnum.

Innleiðing & þjálfun

Mikilvægt er að þjálfa stjórnendur í að umgangast  viðverustefnuna, samtölin og stuðningsúrræði vinnustaðar auk þess að tryggja virka innleiðingu stefnunnar inn á vinnustað. 
 
Við hjá Hjallastefnunni höfum átt ánægjulegt og árangursríkt samstarf við Mental ráðgjöf. Hilja vann með okkur að því að yfirfara og bæta viðverustefnu okkar og móta hagnýta samtalsramma fyrir bæði viðveru- og endurkomusamtöl. 
Allar stýrur tóku þátt í vinnustofu um viðverustjórnun með áherslu á færni í að taka viðverusamtöl við starfsfólk. Í kjölfarið fylgdi Hilja þjálfuninni eftir með hóphandleiðslu þar sem stjórnendur fengu stuðning við að yfirfæra þekkinguna í daglegt starf. Við höfum verið afar ánægð með ráðgjöfina. Hún var fagleg, hagnýt og miðaði að raunverulegum aðstæðum og áskorunum okkar.
Við höfum fengið verkfæri og innsýn sem nýtast okkur í daglegri stjórnun og eflingu starfsumhverfisins.
Alma Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra hjá Hjallastefnunni um vinnu Mental við viðverustefnu & þjálfun

EKKO stefna

EKKO-stefna og viðbragðsáætlun (Einelti, Kynbundin/Kynferðisleg Áreitni og Ofbeldi) lýsir því hvernig vinnuveitandi fyrirbyggir, bregst við og fylgir eftir málum sem tengjast einelti, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustað.

EKKO-stefna skapar skýran ramma um öruggt vinnuumhverfi þar sem virðing og fagmennska eru í forgrunni. Henni er ætlað að tryggja að starfsfólk og stjórnendur hafi sameiginleg viðmið um æskilega og óæskilega hegðun, samskipti og viðbrögð þegar eitthvað kemur upp og að ferli til viðbragðs í málum séu gagnsæ, sanngjörn og í samræmi við lög og reglugerðir.

Markmiðið er ekki aðeins að bregðast rétt við tilvikum heldur að stuðla að menningu þar sem áreitni og óviðeigandi hegðun nær ekki fótfestu. Með EKKO-stefna er stutt við stjórnendur og starfsfólk í að byggja upp öruggan vinnustað þar sem traust, jafnræði og velferð eru í hávegum höfð.

Með EKKO-stefnu fæst sameiginlegur grundvöllur fyrir samtöl um samskipti, öryggi, mörk og hvernig við bregðumst við þegar okkur líður ekki vel eða verðum vitni að óæskilegri eða óviðunandi hegðun.

Markmið

Að tryggja starfsfólki öruggt vinnuumhverfi þar sem einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni og ofbeldi eru ekki liðin.

Með skýrri stefnu, ferlum og réttum stuðningi má draga úr áhættu, efla forvarnir og tryggja faglega og trúverðuga úrlausn mála.

Fagráð

Mental ráðgjöf getur tekið á móti nafnlausum EKKO- ábendingum sem óháður og faglegur aðili.

Við bjóðum einnig setu í fagráði sem utanaðkomandi aðili þar sem við leggjum til sérfræðiþekkingu og tryggjum faglega, hlutlæga og vandaða meðferð mála.

Vantar stefnu eða endurgjöf?

Við getum bæði endurskoðað núverandi EKKO-stefnu og mótað frá grunni. Afurðin er heildstæð EKKO-stefna með viðbragðsferlum, tilkynningarleiðum, verklagi og forvarnaáætlun, unnin í nánu samstarfi við stjórnendur.

Innleiðing & fræðsla

Stjórnendur þurfa þjálfun til að beita EKKO-stefnunni af öryggi, meta mál og veita stuðning.

Innleiðingin felur í fræðslu á staðnum eða rafræna fræðslu fyrir allt starfsfólk til að skapa sameiginlegan skilning og menningu sem tryggir öruggt vinnuumhverfi.
 
Fræðslumiðstöð atvinnulífsins fékk Hilju frá Mental ráðgjöf til að koma inn með vinnustofu þar sem starfsmannahópurinn mótaði sér samskiptasáttmála og voru vinnubrögðin til fyrirmyndar. Gott er fyrir fyrirtæki að móta sér reglur um samskipti á vinnustað þar sem allir koma að málum. Sáttmálinn hefur eflt vinnustaðinn og styrkt samstöðu hópsins. Við mælum eindregið með Mental ráðgjöf. 
 Hildur Betty Kristjándsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins

Samskiptasáttmáli

Samskiptasáttmáli er öflugt tæki þar sem samstarfsfólk sammælist um hvaða gildi og viðmið þau vilja viðhafa í samskiptum sín á milli með það að markmiði að hafa jákvæð áhrif á samskiptamáta og vinnustaðamenningu.

Mikilvægt er að samskiptasáttmáli sé unninn af starfsfólki og stjórnendum og sé í samræmi við kjarnagildi vinnustaðar.

Með innleiðingu samskiptasáttmála fær starfsfólk í hendur og sammælist um tiltekin leiðarljós og mörk í samskiptum, sem auðveldar þeim að viðhafa opin, hreinskiptin og heilbrigð samskipti á vinnustað. Með slíkum sáttmála er enn frekar tryggt að stefna vinnustaðar sé skýr og aðgengileg ásamt því sem hlúð er að heilbrigðum samskiptum og stuðlað að jákvæðri vinnustaðamenningu.

Mótun samskiptasáttmála felur í sér fjóra vinnufundi með ráðgjafa Mental og samanstanda þeir vinnufundir af fræðslu, umræðum og verkefnavinnu. Afurð slíkrar vinnu er síðan fullunninn sáttmáli og aukin samskiptafærni starfsfólks.

Markmið

Markmiðið er að skapa leiðarljós í samskiptum fyrir starfsfólk og stjórnendur og styðja þannig við öll í að benda á óviðeigandi hegðun, stíga inn í aðstæður þar sem óheilbrigð samskipti eru að eiga sér stað sem og að læra að taka við athugasemdum um eigin hegðun.

Helstu atriði

Ferlið felur í sér fjóra vinnufundi:
  • undirbúningsfund
  • mótun sáttmálans
  • innleiðingarfund
  • eftirfylgnifund


Ráðgjafi Mental ritstýrir sáttmálanum á milli 2. og 3. fundar.

Innsýn & færni

Starfsfólk og stjórnendur efla eigin samskiptafærni í gegnum þá fræðslu, umræður og vinnu sem á sér stað. Viðstödd læra að stíga inn í erfið/ krefjandi samskipti, setja mörk og fá þjálfun í að nýta sáttmálann í daglegum störfum.

Af hverju?

Samskiptasáttmáli skapar sameiginlegan skilning á viðeigandi hegðun og stuðlar að jákvæðu vinnuumhverfi. Fái óheilbrigð samskipti að vera óáreitt getur það t.d. ýtt undir streitu, fjarveru og starfsmannaveltu.