Byltingin í geðheilbrigði á vinnustöðum

Framundan er bylting í því hvernig fyrirtæki og stofnanir þurfa að hugsa, tala um og takast á við geðheilsu starfsfólks. Geðheilbrigði á vinnustað er að verða eitt mikilvægasta viðfangsefnið í viðskiptalífinu í dag. Forgangsverkefnið stjórnenda er að huga að þessum málum áður en krísur koma upp.

Þetta er meðal þess sem kom fram í afar áhugaverðri grein sem ráðgjafafyrirtækið McKinsey birti í desember árið 2020 (https://www.mckinsey.com/industries/healthcare-systems-and-services/our-insights/mental-health-in-the-workplace-the-coming-revolution) og segja má að hafi komið umræðu um geðheilbrigði á vinnustöðum á kortið svo um munaði. Síðan þá hefur varla verið þverfótað fyrir fræðigreinum um stjórnun og mikilvægi þess að taka geðheilbrigði á vinnustöðum föstum tökum. Áskoranirnar eru ærnar.

Stjórnendur fyrirtækja standa frammi fyrir gríðarstórum áskorunum í geðheilsu starfsfólks en þekking og reynsla er að mörgu leyti takmörkuð. Ómeðhöndlaður geðvandi starfsfólks leiðir gjarnan til kostnaðarsamra vandamála á borð við veikindafjarvistir, minnkandi framleiðni, aukna starfsmannaveltu og aukin útgjöld til starfsmannamála auk augljósrar mannlegrar þjáningar og skerðingar á lífsgæðum fólks og fjölskyldna þeirra. Svo ekki sé talað um orku og tíma stjórnenda í að fást við slík mál.

Þrátt fyrir gríðarstórar áskoranir og frjóan jarðveg umræðu um mikilvægi geðheilbrigðis hafa íslensk fyrirtæki ekki sett geðheilbrigði í forgang. Geðheilsustefnu er ekki að finna á vefsvæðum íslenskra fyrirtækja og afar fá ef einhver nefna geðheilsu á vefsvæðum sínum.

Með því að setja sér geðheilsustefnu lýsa fyrirtæki og stofnanir því hvernig þau ætla að skapa sér og starfsfólki sínu vinnuskilyrði sem setja geðheilsu starfsfólks í fyrsta sæti. Með skýrri stefnu og markmiðum sem veita umgjörð sem tryggja áhrifaríkar leiðir til að styðja við vellíðan starfsfólks geta fyrirtæki tryggt árangur á þessum sviðum.

Taktu skrefið! Með því að hafa samband ert þú að taka mikilvæg skref að því að verða leiðandi á þessu sviði.